Áður en nemar sækja um æfingaleyfi þurfa þeir að taka:
10-14 verklega tíma og Ökuskóla 1 (Ö1) bóklega hlutann sjá http://bilprofid.is/okuskolar/
Æfingaakstur er hugsaður sem viðbót við ökunámið sjálft
Mikilvægt er að nota æfingaraksturstímabilið vel með því að aka reglulega með leiðbeinanda.
Kröfur til leiðbeinenda.
- Sá sem tekur að sér að leiðbeina í akstri þarf að hafa náð 24 ára aldri.
- Hafa a.m.k. fimm ára reynslu í akstri.
- Hafa verið án refsingar í umferðinni síðustu 12 mánuði.
Ökukennarinn staðfestir rafrænt til Sýslumanns þegar nemi er klár í æfingaleyfi.
Ökukennari þarf að votta að nemandinn hafi öðlast nægilega þekkingu á umferðarreglum og þjálfun í stjórnun ökutækis til að æfa akstur með leiðbeinanda.
Þegar nemandi ekur með leiðbeinanda þarf bifreiðin að vera sérstaklega merkt með skilti sem á stendur “Æfingaakstur”. Bifreiðin þarf að vera í fullkomnu lagi, hún skoðuð og ábyrgðartrygging þarf að vera í lagi.
Ábyrgðin er leiðbeinandans
Leiðbeinandi telst lögum samkvæmt vera stjórnandi bifreiðarinnar með sama hætti og ökukennari. Til marks um það má geta þess að leiðbeinandi sem sinnir leiðsögn undir áhrifum áfengis sætir sömu viðurlögum og ef hann sæti sjálfur undir stýri á bifreiðinni.
Helstu atriði í æfingaakstri
Nauðsynlegt er að fara yfir öll stjórntæki bifreiðarinnar, stilla spegla og önnur öryggistæki, sæti og stýri áður en lagt er af stað. Minnt skal á að ökuneminn stjórnar nú bíl sem hann þekkir ekki og er frábrugðinn þeim bíl sem ökukennarinn leggur til. Mörgum leiðbeinendum finnst þægilegt að hafa viðbótarspegil ( baksýnisspegil) svo þeir geti betur fylgst með umferðinni í kring. Eins getur verið gott að láta ökunemann prófa að aka sjálfskiptum bíl í einhver skipti.
Eftirfarandi atriði er æskilegt að farið sé yfir og æfð með ökunemanum:
- Skipting og hemlun.
- Bifreið tekin af stað í brekku.
- Lagning í bifreiðastæði.
- Vinstri beygja af tvístefnugötu.
- Vinstri beygja af einstefnugötu.
- Akstur í hringtorgum.
- Akreinaskipti, gefa stefnuljós, horfa í spegla, horfa í blindablettinn (horfa um öxl)
- Akstur á að- og fráreinum.
- Framúrakstur.
- Akstur í myrkri.
- Akstur í hálku.
- Akstur á malarvegi.
- Staðsetning á akbraut og breidd ökutækis.
- Hægri reglan.
- Stöðvunarskylda. Stoppa öll hjól bíls í 3.sek
- Umferðarljós. Kubba að lesa beygjuörvar.
- Umferðarmerkin.
- Hjólandi og gangandi vegfarendur.
- Forgangur strætisvagna.
- Viðhorf og forvarnir.
Afar mikilvægt er að leiðbeinandi sé góð fyrirmynd enda læra nýir ökumenn það sem fyrir þeim er haft. Brýna þarf fyrir ökunemanum að nota alltaf bílbeltið. Aka á löglegum hraða og sýna öðrum vegfarendum tillitssemi og virðingu í umferðinni. Ræða þarf ölvun við akstur og hættuna sem skapast af slíku athæfi.
Gefa þarf einfaldar og skýrar fyrirskipanir á rólegan og yfirvegaðan hátt. Æsingur og skammir bera ekki árangur en gera ökunemann þess í stað óöruggan sem getur haft áhrif á aksturshæfni hans.
Eftir að hverjum æfingaaksturstíma lýkur er nauðsynlegt að ræða málin, þ.e. hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis og hvað má betur fara. Ekki er æskilegt að farþegar séu í bílnum við æfingaakstur. Æfingaakstur með ungmenni krefst færni, þekkingar, þolinmæði og æðruleysis. Við skulum vera minnug þess að akstur er dauðans alvara og því afar mikilvægt að vel takist til
“Fengið af vef Vís.is”